Þú eina hjartans...

Einhverju sinni reyndi ég að heyra hvernig textinn var sem karlakórinn söng. Mér heyrðist hann vera einhvernveginn svona:

Þú hreina svarta bindið mitt.
við hörmum spilltra vanda.
Fram laðar kvartett trosið sitt,
þá er hér naumast andað.
Ég finn mér innst í hálsi hrjá
- svo marga þynnri hendir-
þar sneið af pylsu er föst á ská,
svo nú kom verri endir.

En nú hef ég komist yfir þennan texta og er hann á þennan veg:

Þú eina hjartans yndið mitt
í örmum villtra stranda
þar aðeins bjarta brosið þitt
mig ber til draumalanda.
Í þinni finn ég frjálsri brá
svo fagrar innri kenndir
er seiða til sín traust og þrá
í trú sem hærra bendir.

Þannig var nú það.


Stríðshanskinn

Illa fólkið óttast tjón.
Að því sækir kvíði
þegar les þeim lögin Jón
og lýsir yfir stríði.

mbl.is Aðstandendur í stöðugum ótta og í felum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leirburður II

        Einhver umræða var um hvort guð væri hugsanlega kona:


           Uppá himni ríkir guð minn góður.

        Á gjörðum hans er sjaldan nokkur ljóður.

        Þótt kallist ég um kyn hans varla fróður

        sem kona er hann undarlega hljóður.

 

        Skrattinn ríkir hér á jörð sem jarl.

        Jafnan á í vonsku heimsins metið.

        Þó ætla ég hann oftast talinn karl

        sé annars ekki sérstaklega getið.


Leirburður

Ég var lengi þátttakandi á Leir, hinum fræga póstlista hagyrðinga, sem var við lýði á netinu frá árinu 1992 til 2020.
Ég geri mér stundum til dundurs að glugga í kveðskap minn á þeim vettvangi:

        Þó að vetrarþokan grá

      þjaki mannsins huga,

      til að ljóða leirinn á

      leikni virðist duga.

 

Mér þótti  eitthvað svo skáldlegt  og myndrænt að hugsa til mannsins í þokunni að mig langaði að gera aðra vísu. En þegar ég hafði skrifað fyrstu hendinguna tók ég eftir því að hana var búið að yrkja fyrir löngu. Ég notaði því aðra hendingu til að reyna að sveigja upp úr hjólförunum. Ég held að það hafi tekist að því leytinu til að seinni helmingur vísunnar er vonandi nýsmíði:

 

      Þegar vetrarþokan grá

      þig vill inni fjötra

      í hægðum sínum helst vill þá

      hugur skáldsins lötra.


Rakkarapakk

Pakkið í raun kennt við rakkara
rýfur til okkar straum.
Stjórnað af harðkjarna hakkara:
Helvítið á sér draum.

mbl.is Vefur mbl.is lá niðri vegna netárásar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefnir í þrot?

Vísnagerð virðist snúin
þótt verði hún tæpast flúin.
Í ljóðstaf er lagt,
en langflest er sagt
og rímorðin bráðum búin!


Á degi íslenskrar tungu

Á degi íslenskrar tungu verður okkur hugsað til Jónasar Hallgrímssonar. Hann var afkastamikill nýyrðasmiður og gerði íslenska tungu
miklum mun ríkari en hún var fyrir hans tíma.
Ég hef nú komist að því að við erum frændur; skyldir í fjórða og níunda lið.

Við erum frændur víst, Jónas og jeg.
Jafningjar þó erum ekki.
En gæti ég ef til vill gengið hans veg?
Götu hans eitthvað ég þekki.

Nokkrar vísur hef ég svo sem sett saman, sei sei já. Ég bjó líka til nýyrði fyrir nokkrum árum. Sem raunar tengist íslenskri tungu.
Ég er afar montinn af því. Það er ekki nýtt orð yfir tungumálið sjálft, heldur verkfærið sem kemur því til skila: Orðaflaumsbleðill!

En ég skáka samt varla frænda gamla.

Allt í góðu

Að selja banka er líka list.
List er til að njóta.
Þótt við höfum milljarð misst,
að mestu er það til bóta.


mbl.is Aðstoðarmaður Bjarna segir rangt með mál farið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í Kastljósinu

Konu mæta karlinn ekki vildi.
Kastljósstýra, þú að honum sóttir.
Það var eins og blessuð skepnan skildi
að skaðleg yrði Kristrún Frostadóttir.


mbl.is Forsenda að Bjarni væri einn í viðtali
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Skruddublogg

Höfundur

Hallmundur Kristinsson
Hallmundur Kristinsson

Hagyrðingur og hundraðþjalasmiður

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 69
  • Frá upphafi: 128197

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2022
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Bjarni
  • strjálir
  • tásur
  • Leyfið
  • 20170922 164501[1]

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband