Færsluflokkur: Bloggar

Ekki mannaráðningar

Dável sína dóma grundar;
- dæmt skal vera satt -
þar sem margir hæfir hundar
hafa kappi att.
mbl.is Hæfileikakeppni hunda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Össur bloggar

www.visir.is  Konur í verkfræðingastétt senda Össuri opið bréf

Ég ætla að kíkja á næturbloggið hans Össurar í fyrramálið og gá að því  hvort það verður ekki svohljóðandi: 

Málum klúðrað mjög ég hef,
mér finnst því að vonum
að ég fái opið bréf
frá öskureiðum konum.


Skaupið

Skaupið? Kannski ekki það skemmtilegasta í áraraðir. Ég hló nú eiginlega ekki neitt, en fannst þó ýmislegt  sæmilega sniðugt. Mér þótti hugmyndin um flugslysið ekki smekkleg. En ekki dettur mér í hug að úthúða skaupinu og aðstandendum þess. Það er erfitt að gera svo öllum líki og mörgum  þótti bara gaman. Ég á líka eftir að horfa á það aftur. Stundum vinna svona þættir á með endurteknu áhorfi, stundum ekki.


Saga úr sveitinni

Kristinn fyrrum góðbóndi á Arnarhóli í Kaupangssveit var þekktur fyrir að gera vel við kýr sínar, enda launuðu þær honum það með miklum afurðum. Einhverju sinni fékk hann tunnu af dökku sýrópi, sem hann notaði til að bæta þeim í munni og maga. Það var krani á tunnunni og var hún höfð utandyra og sýrópið látið renna í fötur sem bornar voru til kúnna. Einu sinni þegar kalt var í veðri hneig sýrópið
seigfljótandi mjög hægt úr tunnunni. Setti bóndi fötuna undir kranann og hugðist nota tímann sem það tæki að koma lögg í fötuna til annarra verka. Vildi nú ekki betur til en svo að hann steingleymdi fötunni og sýrópinu, tunnunni og krananum. Uppgötvaði sonur hans hagmæltur morguninn eftir að sýrópið var að mestu runnið úr tunnunni og út um víðan völl. Varð honum það efni í vísu:

Fyrir brest á minni manns
margur neðra hýrnar.
Það fór allt til andskotans
sem átti að fara í kýrnar.


Stöðvun framkvæmda

Ég var nú bara rétt svona að hugsa um að ekki muni byggingaverktaka á Glerártorgi vera sérlega skemmt.
Að vera á fullu  með her manns þegar framkvæmdir eru skyndilega stöðvaðar.

Eftir jaml og mikið múður
málið virðist algert klúður.
Hverjir ætli bætur borgi
byggingamönnum á Glerártorgi?


Visir.is

Mér hefur nú svo sem dottið í hug að það sé ef til vill ekki vel séð á þessum slóðum
hversu mjög ég vísa í fréttir á Vísi.is. Það kemur reyndar til af því að satt að segja
er þetta blogg  eiginlega nokkurskonar útibú frá vísisblogginu mínu. En það lesa nú
ekki það margir þetta að það skekki verulega samkeppnisstöðu mbl.is!


Áreksturinn óökufær.

Hver ætli hafi skemmst mest, bílarnir tveir, áreksturinn eða fólksbíllinn?
mbl.is Árekstur á Laugarvatnsvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sveitasæla

http://www.visir.is/article/20071125/FRETTIR01/71125031 

Ennþá er fagurt í íslenskri sveit.
Uppá þar margt við bjóðum.
Þó sjást varla lengur beljur á beit
og bændunum fækkar óðum.

Það þótti nú reyndar fegurra í mínu ungdæmi að tala um kýr. Belja var hálfgert skammaryrði og eins var með rollu.
En þeim virðist fækka blaðamönnunum sem þekkja orðin kýr og kindur.  Aftur á móti er alltaf freistandi stuðlanna vegna að tala um beljur á beit!


Dagur íslenskrar tungu

Auðvitað verður hver einasti bloggari að rita pistil um íslenskt mál í tilefni dagsins í dag. Ég fletti Mogganum áðan og þar voru meðal annars myndir af nokkrum mönnum og konum að sýna íslenskar tungur, sjálfsagt misliprar en ábyggilega allar í góðu lagi. Sömu menn og konur voru beðin að upplýsa hvert væri þeirra uppáhaldsorð íslenskt. Orðið kærleikur var nokkuð vinsælt meðal kvennanna; ekki nema gott um það að segja. Athyglisverðasta orðið þótti mér það sem Þórarinn Eldjárn tiltók; nefnilega skarbítur. Það er fallegt orð og afar íslenskt. Skýrt sem kertaskæri í orðabók Menningarsjóðs - Máls og menningar - Eddu.  En mig langar að vita jafngott orð yfir kertaslökkvara, tæki með löngu skafti og keilulaga hettu á endanum sem sett var yfir logann á kertinu til að slökkva ljósið. Tvö orð koma upp í hugann sem menn hafa velt fyrir sér, annarsvegar kæfa og hins vegar ádrepa. Þau orð eru bæði því marki brennd að vera þrælupptekin í öðrum hlutverkum. En eitthvað hlýtur þetta tæki að heita. Hafi ég heyrt á því nafn hef ég gleymt því, og mikið óskaplega væri nú gaman ef einhver mundi upplýsa mig um þetta smáræði.

Dularfullu skilaboðin

Í dag kl 13.55 sendi ég konu minni svohljóðandi  sms: Btbtm. Þrem mínútum síðar sendi ég syni mínum samhljóða skilaboð. Ég vissi hins vegar ekkert af þessu fyrr en sonur minn hringdi í mig og spurði hvað ég væri að meina. Síminn minn hafði verið ósnertur í hulstri sínu við beltisstað og með takkalæsingu á. Þetta er raunar ekki í fyrsta sinn sem konan móttekur frá mér skeyti sem síminn semur sjálfur og sendir. Þá kemur stundum fyrir að ég hringi úr lokuðum símanum án nokkurrar fyrirhafnar í einhver númer. Hvað er að ske? Er gemsinn minn snarruglaður eða eru hakkarar á sveimi??

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Skruddublogg

Höfundur

Hallmundur Kristinsson
Hallmundur Kristinsson

Hagyrðingur og hundraðþjalasmiður

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Bjarni
  • strjálir
  • tásur
  • Leyfið
  • 20170922 164501[1]

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband