Færsluflokkur: Menning og listir

Hvítt ævintýri.

Þetta litla hvíta ævintýri hefur lifað með mjög litlum hluta þjóðarinnar frá því það var skrifað fyrir nokkrum áratugum. Nú finnst mér tími til kominn að það lifni meðal stærri hluta hennar.

Einu sinni var hvítur ormur. Hvíta orminn elti hvítur ungi. Og hvíta ungan elti hvít rotta. Og hvítu rottuna elti hvítur köttur. Og hvíta köttinn elti hvítur hundur. Og hvíta hundinn elti hvítur hrafn. Og hvíta hrafninn elti hvítur refur. Og hvíta refinn elti hvítur maður. Og hvíta manninn elti hvítur ísbjörn.
Hvíta ísbjörninn elti hvít gæfa:
Hann náði hvíta manninum, sem hafði náð hvíta refnum, sem hafði náð hvíta hrafninum, sem hafði náð hvíta hundinum, sem hafði náð hvíta kettinum, sem hafði náð hvítu rottunni, sem hafði náð hvíta unganum, sem hafði náð hvíta orminum, sem hafði náð sér eftir erfið veikindi.
Hvítur köttur útí hvítri mýri setti upp á sér hvítt stýri og úti er hvítt ævintýri.


Skaupið

Skaupið? Kannski ekki það skemmtilegasta í áraraðir. Ég hló nú eiginlega ekki neitt, en fannst þó ýmislegt  sæmilega sniðugt. Mér þótti hugmyndin um flugslysið ekki smekkleg. En ekki dettur mér í hug að úthúða skaupinu og aðstandendum þess. Það er erfitt að gera svo öllum líki og mörgum  þótti bara gaman. Ég á líka eftir að horfa á það aftur. Stundum vinna svona þættir á með endurteknu áhorfi, stundum ekki.


Dagur íslenskrar tungu

Auðvitað verður hver einasti bloggari að rita pistil um íslenskt mál í tilefni dagsins í dag. Ég fletti Mogganum áðan og þar voru meðal annars myndir af nokkrum mönnum og konum að sýna íslenskar tungur, sjálfsagt misliprar en ábyggilega allar í góðu lagi. Sömu menn og konur voru beðin að upplýsa hvert væri þeirra uppáhaldsorð íslenskt. Orðið kærleikur var nokkuð vinsælt meðal kvennanna; ekki nema gott um það að segja. Athyglisverðasta orðið þótti mér það sem Þórarinn Eldjárn tiltók; nefnilega skarbítur. Það er fallegt orð og afar íslenskt. Skýrt sem kertaskæri í orðabók Menningarsjóðs - Máls og menningar - Eddu.  En mig langar að vita jafngott orð yfir kertaslökkvara, tæki með löngu skafti og keilulaga hettu á endanum sem sett var yfir logann á kertinu til að slökkva ljósið. Tvö orð koma upp í hugann sem menn hafa velt fyrir sér, annarsvegar kæfa og hins vegar ádrepa. Þau orð eru bæði því marki brennd að vera þrælupptekin í öðrum hlutverkum. En eitthvað hlýtur þetta tæki að heita. Hafi ég heyrt á því nafn hef ég gleymt því, og mikið óskaplega væri nú gaman ef einhver mundi upplýsa mig um þetta smáræði.

Eitt enn...

...sem fer í taugarnar á mér:  Bloggarar sem skrifa undir dulnefni.

Ekki vísa

Hverslags er þetta! Hér gubba ég uppúr mér hverri vísunni á fætur annarri en minnist ekkert á neitt sem fer í taugarnar á mér. Ég kann greinilega ekkert að blogga!

Ég ætla að fjalla hér um þrjár nafngiftir. Eitthvert sameinað sveitafélag hér út með firði er það síðasta sem manni dettur í hug þegar nefnd er Fjallabyggð. Fjöll með stórum staf hafa hingað til vísað beint á Hólsfjöll, sbr. Grímstaðir á Fjöllum, Möðrudalur á Fjöllum o.s.frv.

Hið fjallmyndarlega hús, sem áður gekk undir nafninu Barnaskóli Akureyrar eða Barnaskóli Íslands, skartar nú nafninu Rósenborg. Það var nú annað hús sem gekk undir þessu nafni í denn. Algjör óþurftaraðgerð að planta því á hið aldna skólahús þótt gamla Rósenborg sé ekki til nema á myndum og í minningunni.

Hins vegar þykir mér allt í lagi með nafnið á rísandi menningarhúsi okkar Akureyringa
Það heitir Hof.  Rímar á móti klof.


Iðrun og yfirbót

Ég hef orðið uppvís að rangri meðferð íslensks máls. Mér var bent á villu í vísu minni um ástir og símasambandsleysi Bolvíkinga. Ég verð því að skipta um eitt orð í henni og eftir þá breytingu verður hún  svona:

Eftir því sem ástin vex
og því fleiru að sinna
næði fyrir símasex
sjálfsagt verður minna.

Það er alltaf leiðinlegt að beita tungunni rangt og ég skammast mín ákaflega. Ég ætla þó ekki hætta  að blogga af þessu tilefni, enda lít ég svo á að aðeins hafi verið um tæknileg mistök að ræða af minni hálfu.....


3.sálmur

Jæja, ætli það sé ekki kominn tími á síðasta sálminn. Þeir eru nú svo sem börn síns tíma, en hafa furðanlega staðist tímans tönn.

3.sálmur.
Um baráttu kvenna.

Ýmislegt konan getur gert.
Gagn er að henni mikið.
Þjónustustarfið þakkarvert,
þurrkar hún frá oss rykið.
Ýmsar þó telja opinbert
oftast sé kaupið svikið.

Mörg hefur konan svoddan sið:
sífellt er hún að mala.
Það er hún löngum lagin við
þótt lítið sé um að tala.
Þá fær nú haninn hæpinn frið
ef hænan er farin að gala.

Valkyrjustóðið vakir nokk.
Vopnin í bræði skekur.
Rassaköst meður rauðan sokk
reiði hjá sumum vekur.
Þeir höbbðu sagt um þennan flokk
hann þætti dálítið frekur.

Karlarnir traðka allir á
einkahagsmunum kvenna.
Af því vill skapast ekki smá
angist og taugaspenna.
Jafnvel frá kúnum sölt má sjá
samúðartárin renna.

Rauðsokkótt mærin elginn óð
ákaft með þetta blaður.
Ódannað henni útúr flóð
æsingabull og þvaður.
Hafði við orð svo heit og rjóð
að hún væri líka maður.

Telur sig konan mikinn mann,
mennina hljóða setur.
Vit á því ekkert hefur hann
sem hún í rauninni getur.
Það er svo margt sem konan kann
körlunum mikið betur.

Þó held ég konum illa eitt
án hjálpar karla gengi.
Hefi ég að því hugann leitt,
hugsað það vel og lengi.
Útkoman verður aldrei neitt
annað en tómamengi.

Eitt er það sem ég ekki skil
annað en biði hnekki.
Lítið ég veit um lífsisns spil.
Lögmál þó eitt ég þekki:
Ég veit hvernig börnin verða til.
En vita þær það kannski ekki?

Norðlenskar staðreyndir

Til að viðhalda ævafornum og meinhollum hrepparíg væri ekki úr vegi að dusta rykið af vísum sem ég setti saman fyrir fáum árum. Þær eru að sjálfsögðu sígildar og  aldrei of oft kveðnar.

     Hjá Skagfirðingum leynast fáir lestir,
     því ljósir margir eru þeirra grönnum.
     Og Húnvetningar hafa sjálfsagt flestir
     hæfileika til að líkjast mönnum.

     Að Þingeyingar séu manna mestir,
     meining þeirra leyna sjálfir eigi.
     En alltaf reynast Eyfirðingar bestir
     þótt um það helst af lítillæti þegi.


Lítillátur ljúfur kátur

Þessa vísu orti ég upphaflega um sjálfan mig, en breytti henni snarlega til almennrar skýrskotunar vegna eðlislægs lítillætis.

Ekki eru dáðir dánumenn
dauðir úr öllum æðum.
Vísurnar margar yrkja enn
ótrúlegar að gæðum.


Er það ekki?

Eins og bjarmi af ástarbáli

eykur losta friðilsins

þeir sem blogga í bundnu máli

bæta ímynd miðilsins.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Skruddublogg

Höfundur

Hallmundur Kristinsson
Hallmundur Kristinsson

Hagyrðingur og hundraðþjalasmiður

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Bjarni
  • strjálir
  • tásur
  • Leyfið
  • 20170922 164501[1]

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband