Færsluflokkur: Menning og listir

Auglýsing

Fyrir þessa bögublesa
er bloggið nokkuð stunda
þá er vel þess virði að lesa
vísurnar hans Munda!


Gallery Box

Í tilefni þess að Myndlistarfélagið hefur tekið við rekstri Gallery Box varð til eftirfarandi vísa:

Dagsins skímu lítur loks
listin eina og sanna
þegar nýtt og betra Box
bætir stöðu manna.


Flug

Ég flaug til Færeyja í fyrri viku ásamt dansfélaginu Vefaranum.
Að okkur lentum á Vogaflugvelli eftir stutt og snaggaralegt flug
orti ég:


Vefararnir ungu og öldnu
ósköp hljóta fegnir því
að vera lentir heilu og höldnu
hérna Færeyjunum í.


Til fyrirmyndar

P4060050Þessi mynd er úr Hafnarstræti á Akureyri. Bláa húsið er númer 31.
Það sker sig ekki úr heillegri götumyndinni, en hefur þó þá sérstöðu að vera u.þ.b. 90 árum yngra en hin húsin. Þarna var sem sagt fyrir nokkrum árum byggt nýtt hús með gömlu útliti. Nokkuð sem mætti gera meira af þar sem akkur er í að varðveita einhverjar heildarmyndir. Það eina sem er í rauninni frábrugðið að ytra útliti húsunum í kring eru gluggarnir, en þeir sitja heldur innar í veggjunum, sem eru allnokkru þykkri  en í þessum gömlu timburhúsum.

Ég er þeirrar skoðunar að oft sé þessi  leið hagkvæmari og betri til umhverfisverndunar; þ.e. að byggja nýtt frá grunni heldur en að halda upp á fáeinar heillegar spýtur úr illa förnum húsum, byggja í kringum þær, og telja svo að um uppgert hús sé að ræða, þótt harla fátt sé upprunalegt þegar upp er staðið.


Staka

Lítil sögn um loftin flaug:
Lævís væri syndin.
Hálfvitinn sem henni laug
hélt´ann væri fyndinn!


Ein limran enn

Eftirfarandi limra fjallar um hinn hagyrta rithöfund, Björn Andrés Ingólfsson, fyrrum skólastjóra á Grenivík. Að öðru leyti er hún algjör uppspuni frá rótum.

Hann Björn var í bland með tröllum,
bundinn trúnaði öllum,
og þegar hann var
þráspurður hvar,
þá kom hann alveg af fjöllum.


Orðaskýringar

Það var hér um árið að ég var að vinna hjá Leikfélagi Akureyrar. Þá var Sigurður Hróarsson leikhússtjóri. Dag nokkurn kvaðst hann hafa verið á mánaðarlegum fundi forstöðumanna menningarstofnana bæjarins og þar hafi m.a. verið dreift blaðsnepli með ýmsum skrám og töflum til útfyllingar. Á þessum snepli hefði auk annars verið að finna eftirfarandi íslensk orð. Bað hann um aðstoð samverkamanna sinna til skilnings þessum orðum. Sem góður leikhúsþegn brást ég við þessari bón hans og útbjó skýringar á  þessum orðum.

Árangursstjórnunarkerfi                               

Kerfi til stjórnunar á árangri, felst einkum í því hvort  hugsað er á undan eða eftir framkvæmdum.

Árangursbreytingastjórnun

Að stjórna breytingum á árangri – felst einkum í
því að vinna hægar eða hraðar eftir atvikum,snertir
einnig lengd kaffitíma.

Aðgerðaráætlun

Rökstudd ákvörðun um að fara í aðgerð,t.d.brjóstastækkun eða kynskipti.

Árangurshugsun

“Höfum við gengið til góðs……”

Skorkort

Kort sem rennt er í skoru,t.d. Debetkort eða fríkort.

Skýjamarkmið

Stefnuákvörðun í blindflugi.

Orsaka – afleiðingasamband

Hjónaband eða sambúð.

Jafnvægisstillingarmæling

Ákveðin aðgerð á hjólbarðaverkstæði.

Árangursmælikvarði

Talning seldra aðgöngumiða.

Árangurshvati

Viagra.

Heildarskorkort

Kort notað í kappleikjum sem heimilar handhafa
að skora öll mörkin.

Afleiðingasamhengi

Gálgi fyrir tvo eða fleiri.

Árangursviðmið

Samanburður við meðal-Jón.

Staðbundin og heildræn endurgjöf

Æla.

Upplýsingagjöf

Gefinn lampi eða ljóskastari.

Drefistýring

Stilliarmur á áburðardreifara.

Viðhorfskönnun

Kerfisbundin athugun á meðvitaðri afstöðu manna til margvíslegra umhverfisþátta.

Fjárhagsáætlunarferli

Gjaldþrot eða bankarán


Staka

Hefur andans Herðubreið
á himni safnað auði.
Ljúfa, gef mér litla sneið
af lífsins vínarbrauði.

Brennandi spurning - bráðgott svar

Verður engin vísa í dag
vistuð á bloggi mínu?
Nú er heima. Nú er lag;
núna er allt í fínu!

Harkalegt

Mig langar að vekja athygli á þessari færslu Möguleikhússins.

http://moguleikhusid.blog.is/blog/moguleikhusid/entry/431433/

Það er spurning hvað ræður svona ákvörðun.


Næsta síða »

Um bloggið

Skruddublogg

Höfundur

Hallmundur Kristinsson
Hallmundur Kristinsson

Hagyrðingur og hundraðþjalasmiður

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Bjarni
  • strjálir
  • tásur
  • Leyfið
  • 20170922 164501[1]

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband