Færsluflokkur: Bloggar

Ekki vísa

Hverslags er þetta! Hér gubba ég uppúr mér hverri vísunni á fætur annarri en minnist ekkert á neitt sem fer í taugarnar á mér. Ég kann greinilega ekkert að blogga!

Ég ætla að fjalla hér um þrjár nafngiftir. Eitthvert sameinað sveitafélag hér út með firði er það síðasta sem manni dettur í hug þegar nefnd er Fjallabyggð. Fjöll með stórum staf hafa hingað til vísað beint á Hólsfjöll, sbr. Grímstaðir á Fjöllum, Möðrudalur á Fjöllum o.s.frv.

Hið fjallmyndarlega hús, sem áður gekk undir nafninu Barnaskóli Akureyrar eða Barnaskóli Íslands, skartar nú nafninu Rósenborg. Það var nú annað hús sem gekk undir þessu nafni í denn. Algjör óþurftaraðgerð að planta því á hið aldna skólahús þótt gamla Rósenborg sé ekki til nema á myndum og í minningunni.

Hins vegar þykir mér allt í lagi með nafnið á rísandi menningarhúsi okkar Akureyringa
Það heitir Hof.  Rímar á móti klof.


Bolur Bolsson - minning

Þér skal rétta línan lögð
langi þig að blogga;
vilja engin bolabrögð
bloggstjórnendur Mogga.

Iðrun og yfirbót

Ég hef orðið uppvís að rangri meðferð íslensks máls. Mér var bent á villu í vísu minni um ástir og símasambandsleysi Bolvíkinga. Ég verð því að skipta um eitt orð í henni og eftir þá breytingu verður hún  svona:

Eftir því sem ástin vex
og því fleiru að sinna
næði fyrir símasex
sjálfsagt verður minna.

Það er alltaf leiðinlegt að beita tungunni rangt og ég skammast mín ákaflega. Ég ætla þó ekki hætta  að blogga af þessu tilefni, enda lít ég svo á að aðeins hafi verið um tæknileg mistök að ræða af minni hálfu.....


Það er þetta með gerfigreindina

Fara mætti frétt með leynd
svo færra að oss sverfi
er uppgötvast að okkar greind
er víst bara gerfi.

Kæfa

Það að borða Kjarnakæfu
kann að boða mikla gæfu.
enda þótt hún inn sé kölluð
af því hún var pínu gölluð.


mbl.is Kæfa frá Kjarnafæði innkölluð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kolefnisjöfnuður

Mig langar að láta kolefnisjafna bílinn minn. Hugsa að gangurinn verði þýðari við það.
Ég byrjaði að leita í símaskránni. Fann ekkert kolefnisjöfnunarverkstæði. Kannski væri hægt að fá bara kolefnisjafnaðarmann heim til þessa verks. Kolefniskrata. Skyldi Össur vera kolefniskrati? Ég kann ekki við að hringja í hann og spyrja. Þekki hann ekki neitt. Umfram það sem maður  kynnist opinberum persónum í fjölmiðlum. Hvað á ég að gera? Segið mér ekki að fara og planta trjám. Ég ætla sko ekkert að fara að kolefnisjafna fyrir Pétur og Pál. Bara minn eigin bíl og ekkert annað. Það er annars ljótt með bílafjölgunina í Kína. Svei mér sem þeir þurfa að kolefnisjafna. Spurning hvort það er nokkurt pláss fyrir öll þau tré sem til þess þarf.

Bætt úr brýnni þörf

Á málum eru margir kantar
misjafnir að sjá.
Einmitt nú ég veit að vantar
vísu bloggið á.

Hámarkshraði

Ég hef verið að hugsa um hámarkshraða á vegum úti. Sem er 90km/klst almennt en 80km fyrir stóra bíla og bíla með tengivagna,kerrur,hjólhýsi, tjaldvagna og þess háttar. Mér finnst einhvernveginn að þetta gangi illa upp á tvíbreiðum vegum, sem aðeins eru ein akrein í hvora átt. Færu ökumenn stóru bílanna og vagndráttartækjanna almennt eftir þessum hraðareglum yrði held ég alveg skelfilega mikið um varasama framúrakstra.

Gamla greyið

Ekið var í fullsvo miklu flaustri
fyrir bíl af ævafornri gerð.
Brunabíll á Kirkjubæjarklaustri
komst því ekki á enda þessa ferð.


mbl.is Slökkvibíllinn á Kirkjubæjarklaustri gafst upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slagur í uppsiglingu?

Ég sé ekki betur en Pétur Leirgoði sæki nú á sömu mið og Ellý Ármanns hefur fiskað svo vel á í sínu bloggi.

Leirgoðinn tekur nú brögðum að beita
búinn púðrinu nægu.
Óvægna samkeppni ætlar að veita
Ellýjarpistlunum frægu!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Skruddublogg

Höfundur

Hallmundur Kristinsson
Hallmundur Kristinsson

Hagyrðingur og hundraðþjalasmiður

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Bjarni
  • strjálir
  • tásur
  • Leyfið
  • 20170922 164501[1]

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband