Mismunur

Talað er um að velmegandi aðila skorti skilning á kjörum hins sauðsvarta almúga:

Æði margir auði safna.
Augljóst með það lið;
að það hugsar alla jafna
öðruvísi en við.


Orðaskýringar

Það var hér um árið að ég var að vinna hjá Leikfélagi Akureyrar. Þá var Sigurður Hróarsson leikhússtjóri. Dag nokkurn kvaðst hann hafa verið á mánaðarlegum fundi forstöðumanna menningarstofnana bæjarins og þar hafi m.a. verið dreift blaðsnepli með ýmsum skrám og töflum til útfyllingar. Á þessum snepli hefði auk annars verið að finna eftirfarandi íslensk orð. Bað hann um aðstoð samverkamanna sinna til skilnings þessum orðum. Sem góður leikhúsþegn brást ég við þessari bón hans og útbjó skýringar á þessum orðum.


Árangursstjórnunarkerfi
Kerfi til stjórnunar á árangri, felst einkum í því hvort hugsað er á undan eða eftir framkvæmdum.

Árangursbreytingastjórnun
Að stjórna breytingum á árangri – felst einkum í
því að vinna hægar eða hraðar eftir atvikum,snertir
einnig lengd kaffitíma.

Aðgerðaráætlun
Rökstudd ákvörðun um að fara í aðgerð,t.d.brjóstastækkun eða kynskipti.

Árangurshugsun
“Höfum við gengið til góðs……”

Skorkort
Kort sem rennt er í skoru,t.d. Debetkort eða fríkort.

Skýjamarkmið
Stefnuákvörðun í blindflugi.

Orsaka – afleiðingasamband
Hjónaband eða sambúð.

Jafnvægisstillingarmæling
Ákveðin aðgerð á hjólbarðaverkstæði.

Árangursmælikvarði
Talning seldra aðgöngumiða.

Árangurshvati
Viagra.

Heildarskorkort
Kort notað í kappleikjum sem heimilar handhafa að skora öll mörkin.

Afleiðingasamhengi
Gálgi fyrir tvo eða fleiri.

Árangursviðmið
Samanburður við meðal-Jón.

Staðbundin og heildræn endurgjöf
Æla.

Upplýsingagjöf
Gefinn lampi eða ljóskastari.

Drefistýring
Stilliarmur á áburðardreifara.

Viðhorfskönnun
Kerfisbundin athugun á meðvitaðri afstöðu manna til margvíslegra umhverfisþátta.

Fjárhagsáætlunarferli
Gjaldþrot eða bankarán


Veðurvísa

Hér er margt sem hugann gleður.
Hafa skal það gott í dag.
Nú er ágætt vísnaveður;
verðugt efni í lítinn brag!

Í flýti

Umsetningin ótalföld.
Svo enginn verði skaði
finna þeir upp flýtigjöld,
sem fáist greidd með hraði.


mbl.is Ný flýti- og umferðargjöld komi til á næstu árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bank bank


Arionbanki er enn ekki seldur.
Eitthvað virðist samt leitandi,
sem er í lagi, en hann er þó heldur
hæpinn atvinnuveitandi.


mbl.is „Algjörlega nýr veruleiki“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagur náttúrunnar

Allir þjóna eigin hag.
Afleiðingar flestum kunnar.
Höfnum slíku hér í dag;
hlýðum kalli náttúrunnar!


Bara svona vísa

Gæfu okkar gáðum að.
Glöð við náðum saman.
Sitthvað bauðst - við þáðum það
og þótti báðum gaman.


Valið

Komst til valda vonarstjarna.
Var hún yfir dómsmál sett.
Kannski reynir Áslaug Arna
að endurnýja Hæstarétt.

Hún verður dáindis dómsmálaherra
og dugleg til verkanna þarna,
og aldeilis ekki það virðist nú verra
hve vel hún rímar við Bjarna.


Sá þriðji

Tæpast smíði telst það góð
að taka vinkil skakkan.
Ekki vantar þessa þjóð
þriðja orkupakkann.


mbl.is Beiti synjunarvaldi gegn orkupakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

How air

Efnahaginn elskar sérhver kjaftur.
Enda þótt hann virðist brunninn raftur,
þá hlífir kannski hulinn verndarkraftur
honum þegar Skúli gengur aftur.

mbl.is Hyggst endurvekja rekstur WOW air
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Skruddublogg

Höfundur

Hallmundur Kristinsson
Hallmundur Kristinsson

Hagyrðingur og hundraðþjalasmiður

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Bjarni
  • strjálir
  • tásur
  • Leyfið
  • 20170922 164501[1]

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband