Gömul saga

Bjargráð okkar taka tröll
og týna þeim í móðunni
þegar svo til eggin öll
eru í sömu skjóðunni.


mbl.is Á áttunda hundrað sagt upp hjá 15 fyrirtækjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misþroska

Konu þessa meta menn;
mörgu góðu skartar.
Rassinn virðist yngri en
aðrir líkamspartar.


mbl.is 47 ára en sýnir rassinn eins og 27 ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki ekta

Við kennara ekki ég erfi
þótt aldrei þeir kenndu mér neitt.
Kannski var greind þeirra gerfi.
Þá gátu þeir engu um breytt.


mbl.is Gervigreindur kennari tekur til starfa í HR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á gamlingjamóti

Gott er að komast á gamlingja deit.
Geggjað að vera hér saman.
Sum okkar horuð og sum okkar feit
og sum okkar hrukkótt í framan.


Gamalla karlhlunka þekki ég þrár.
Þannig er málunum varið
að fyrir löngu er allt okkar hár
annaðhvort grátt eða farið.


Áþreifanlega nú verðum þess vör
að við munum bráðlega flest
orðin í rauninni afgömul skör
sem á okkur glögglega sést.


Flokkaðu rétt

Þótt eitthvað virðist nothæft nokk
og nái í góðan flokk,
getur það verið fokking fokk
að flokka eftir plokk!


mbl.is Flokkaði kynlífstæki í Sorpu eftir plokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

G

Fullnægingu fýsir í,
fúsar taka sprettinn,
en fara svo í fýlu því
þær finna ekki blettinn.


mbl.is Þú getur slakað á: G-bletturinn er ekki til!
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er allt vænt sem vel er grænt?

Enginn veit hvort eitthvað bíður
okkar hag að vænka.
Hvað sem annars öðru líður
er nú farið að grænka!


mbl.is „Já, vertu sæll vetur!“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sálmar í tilefni kvennaárs 1975

3. sálmur. Um baráttu kvenna.

Ýmislegt konan getur gert.
Gagn er að henni mikið.

Þjónustustarfið þakkarvert,
þurrkar hún frá oss rykið.
Ýmsar þó telja opinbert
oftast sé kaupið svikið.

Mörg hefur konan svoddan sið:
Sífellt er hún að mala.

Það er hún löngum lagin við
þótt lítið sé um að tala.
Þá fær nú haninn hæpinn frið
ef hænan er farin að gala!

Valkyrjustóðið vakir nokk.
Vopnin í bræði skekur.
Rassaköst meður rauðan sokk
reiði hjá sumum vekur.
Þeir höbbðu sagt um þennan flokk
hann þætti dálítið frekur.


Karlarnir traðka allir á
einkahagsmunum kvenna.
Af því vill skapast ekki smá
angist og taugaspenna.
Jafnvel frá kúnum sölt má sjá
samúðartárin renna.

Rauðsokkótt mærin elginn óð
ákaft með þetta blaður.
Ódannað henni útúr flóð
æsingarbull og þvaður.
Hafði við orð svo heit og rjóð
að hún væri líka maður.

Telur sig konan mikinn mann;
mennina hljóða setur.
Vit á því ekkert hefur hann
sem hún í rauninni getur.
Það er svo margt sem konan kann
körlunum mikið betur.

Þó held ég konu illa eitt
án hjálpar karla gengi.
Hefi ég að því hugann leitt,
hugsað það vel og lengi.

Útkoman verður aldrei neitt
annað en tómamengi.

Eitt er það sem ég ekki skil
annað en biði hnekki.
Lítið ég veit um lífsins spil.
Lögmál þó eitt ég þekki:
Ég veit hvernig börnin verða til.
En vita þær það kannski ekki?


                Gjört í tilefni kvennaárs 1975.


Sálmar í tilefni kvennaárs 1975

2. sálmur.

Um eiginleika konunnar og ýmsa aðskiljanlega kosti hennar.Konan sem íþróttagrein. Leikir karla og kvenna.

 

Konunni vil ég syngja sætt
sérdeilisgóðan brag.
Meiður er hún af Evu ætt
með allt hennar sköpulag.
Haldreipi lífsins holdi klætt
hún er oss enn í dag.

Því er nú konan þannig gjörð
að það megi hennar njóta,
hún á í verki að halda vörð
um hagsmuni oss til bóta.
Löngum var sprund í lundu hörð
ljúfari á milli fóta

Líkami kvenna er listasmíð;
lofgjörð um drottins snilli.
Iljarnar fagrar, augun fríð,
item flest þar á milli.
Um gæti vitnað enn um hríð.
Orðum í hóf þó stilli.

Kvenfólk hefur af engu of.
Óþarfa fáan ber það.
Sköpulag þess á skilið lof;
skemmtilegt talið er það.
Það hefur bæði kjaft og klof
og kann vel að nota sér það.

Karlmönnum var það lengi ljúft
að leggja sig konu hjá.
Bætir það skapið hrellt og hrjúft,
hreyfing kemst blóðið á.
Svo hefur margur sokkið djúpt
að segi þar enginn frá.

Konuna margir keppa við
kynlífs á hálu svelli.
Oft eru þetta erfið mið;
allmargir hljóta skelli.
Hún er í þessu lík og lið
sem leikur á heimavelli.

Holl er sú íþrótt, heilsubót
hana ef menn stunda þora.
Stælir hún bakið, styrkir fót,
stefnuna mótar vora.
Iðkendur sækja marki mót,
miða, punda – og skora.

Margt er í leik til gamans gert.
Gáfur í bríma dofna.
Hörund er nakið, holdið bert,
hugsanaþræðir rofna.
Gæti þó talist töluvert
sem til er verið að stofna.

Margur tók sveinn í hrunda hönd
hóglegu meður glingri.
Skynsemi sína leið og lönd
lét mót gulli á fingri.
Hneppti þá mey í heilög bönd.
Hún verður sífellt þyngri.

 

3.sálmur verður birtur síðar.

 

 

 


Sálmar í tilefni kvennaárs 1975

1.sálmur.
Um komu konunnar í ríki mannsins.


Fyrst var í heimi Adam einn.
Engin hann kona glapti.
Umhverfis hann var ekki neinn
í hann sem slúðrið lapti.
Saklaus var og í huga hreinn
Herrann uns Evu skapti.


Víst snemma Eva vildi það
vera honum hjá um nætur.
Fannst honum þetta fyrst í stað
fremur litlar umbætur.
Tók þó að hafast allmjög að.
Á því fékk seinna mætur.


Ólmaðist hjarta Evu þar.
Adam þörf hennar skildi.
Það er langt síðan þetta var.
Þó hefur enn sitt gildi
að hann var þarna ekki spar
á það sem konan vildi. 


Adams gamla og Evu spor
enn eru mikið gengin.
Umhveris þau er eilíft vor,
í þeim er sæla fengin.
Ástin og girndin hvor sem hvor,
hversvegna skilur enginn.

Tveir síðari sálmarnir birtast síðar.


Næsta síða »

Um bloggið

Skruddublogg

Höfundur

Hallmundur Kristinsson
Hallmundur Kristinsson

Hagyrðingur og hundraðþjalasmiður

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 67
  • Frá upphafi: 128195

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2020
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30    

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Bjarni
  • strjálir
  • tásur
  • Leyfið
  • 20170922 164501[1]

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband