Saga í stuttu máli

Karli sem hafði í hótunum
Hallgerður borgar með fótunum.
Til skammar var neydd.
En skuldin er greidd:
Hann skrimtir á örorkubótunum.


Læknalimra

Þorvaldur læknir í Lindum
las út úr röntgenmyndum.
Höfum ei hátt,
því hér dvínar brátt
sjarminn af gömlum syndum.


Form

Ekki er ég taglhnýttur neinskonar normi.
nú er það málið að vísan sé töff;
limra að efni en ferskeytla að formi.
Finnst ykkur það ekki ágætisstöff?

Gengur um Þingvöll Þormóður,
þaðan heldur að Grund,
hittir þar fjarskylda formóður
og fer með henni í sund.


Um fundarstjórn forseta

Örstutt um fundarstjórn forseta:
Ég hef veitt því athygli að þingforseti stjórnar ekki
þinginu nema höppum og glöppum. Nær endalausar umræður fara fram um fundarstjórn forseta þar sem m.a. er skorað á hann
að taka af dagskrá mál sem situr fast í meðförum þingsins. Menn beina alltaf máli sínu til hæstvirts forseta sem í mjög mörgum tilfellum er alls ekki á stóli forseta, heldur í hans stað einhver valdalaus staðgengill. Það er svolítið hlálegt að sjá þingmenn sem deilt hafa mjög á störf forseta setjast svo í hans stól til að taka við sömu gagnrýni frá flokkssystkinum sínum. Mér virðist að þá sé þingið stjórnlaust þrátt fyrir að einhverjar dúkkur séu settar á forsetastól.


mbl.is „Krakki með bensínbrúsa og eldspýtur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til stjórnarandstöðunnar

Sama er hversu í móinn þið maldið,
það mun ekki hrífa þótt liðið sé baldið.
Þeir ríðandi á svig við rauða spjaldið
reyna að nýta til fullnustu valdið,
hefði ég haldið.


Já, veðrið

Ég daprast á deginum köldum
en deili þó einum brag.
Ég veit ekki af hverskonar völdum
veðrið er svona í dag.


Halló

Maður veitir því athygli þegar maður mætir bílstjóra sem ekki er að tala í síma og fer ósjálfrátt að hugsa: Ætli aumingja maðurinn eigi engan síma eða kannski enginn vilji tala við hann?


Situr fast eins og samningamál

Nú verð ég að segja á vorinu last,
það virðist eitthvað svo þvingað.
Aumingja sumarið situr víst fast
svo það kemst ekki hingað!


Vandamál

Ósjaldan velktist í vafa
um vinina telpan hún Svafa.
Vandinn sá var
hún vissi ekki hvar
né hvenær hvern skyldi hafa.


Ætli þetta sé ekki allt að koma?

Senn mun leika vor um völlu,
vetrar máttur dvín,
blessuð sólin breytir öllu,
bara ef hún skín.


Næsta síða »

Um bloggið

Skruddublogg

Höfundur

Hallmundur Kristinsson
Hallmundur Kristinsson

Hagyrðingur og hundraðþjalasmiður

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2015
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Bjarni
  • strjálir
  • tásur
  • Leyfið
  • 20170922 164501[1]

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband