Stutt gaman

Í þinginu var ræðustúfur stuttur
um stefnumál í hálfkæringi fluttur
og þingforseta þótti eina vitið
að þessu skyldi lokið. Fundi slitið.


mbl.is Forseti Alþingis getur ekki afhent dagskrárvaldið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr dagur

Enginn sína auðnu flýr.
Ákaft margur brallar.
Dagur þessi, núna nýr,
á nýja vísu kallar.


Fyrir nóttina

Einn sem líkt og aðrir menn
ótal vísur semur,
hyggst nú gera eina enn
áður en nóttin kemur.


Græðum landið

Undurfagra eina lít
eðalsveit að gróa.
Hundrað tonn af hæsnaskít
hylur mel og móa.


mbl.is Dreifir hundrað tonnum af hænsnaskít í hverri viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fundið í fórum mínum

Ofurlítil fiskifluga
fá sér vill í svanginn.
Eitt er henni efst í huga:
Unga frúin mér skal duga.
Þýtur gegn um ganginn.

Unga frúin óttaslegin
óðar tekur sprettinn.
Flugan henni varnar veginn,
voðaleg og óuppdregin,
grimmdarleg og grettin.

Nú  af græðgi flugan fyllist;
fær sér vænan bita.
Unga frúin alveg tryllist,
ekki flugan heldur stillist.
Voði er að vita.

Hvorug friðar tekur trúna,
tryllingslega berjast.
Þarna bítur flugan frúna,
frúin ákaft hljóðar núna,
á í vök að verjast.

Loksins kemur leik að skakka
lítill feitur drengur.
Frúin á nú það að þakka
þessum litla, feita krakka,
að hún lifir lengur.


Samvinna

Í örreytiskoti og allsnægtahöll
allt er með breyttu sniði.
Berjumst gegn veirunni, við skulum öll
vera í sama liði.


mbl.is Harðari aðgerðir ef upp koma hópsýkingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gúrkutíð

Þótt ósköp fátt sé um að vera,
engu fær það breytt.
Vissulega er vert að gera
vísu um ekki neitt.


Lítillátur ljúfur kátur

Seint mun höfundur eftirfarandi ljóðs verða kallaður ljóðskáld, enda þótt þokkalega hagmæltur sé.Kannski stafar það af meðfæddri hógværð hans og lítillæti sem augljóst er af þessu ljóði hans.

Ég sá það var hófanna leitað um ljóð
og launum heitið þeim bestu.
Þá mundi ég eftir hvað mín eru góð,
mér finnst þau bera af flestu.

Ort get ég kvæði eitt á blað,
ekki með neinum galla.
Verst er bara ég veit ekki um hvað
vísurnar eiga að fjalla.

Reyra ég skal með ró og spekt
í rímbönd og stuðla alla
eitthvað sem mér finnst menningarlegt
og mönnum hlýtur að falla.

Kvæði mín eru verðlauna verð.
Vart fer það mála á milli.
Ég er svo lipur við ljóðagerð
að líkast til jaðrar við snilli.

Leiftur míns anda skín svo skært
skáhallt um sálargluggann;
þótt yrkja líka sé öðrum fært,
allt mun það falla í skuggann.

Að þessu tæplega gruflandi geng.
Í grafgötu fer ekki neina.
Engan hlaut menningin ómtærri feng
né andlega snilli svo hreina.

Háttvísin æ mér hefur fylgt
og hógværðin valdið raunum.
Ég tek þó fram að ég tel mér skylt
að taka við sigurlaunum.

Af einhverjum óskiljanlegum orsökum hlaut ljóð þetta ekki náð fyrir augum dómnefndar þess menningarfélags er blásið hafði til ljóðasamkeppni í þetta sinn.


Hlaupaskórnir

Tilefni þessa bálks var það að einn vinnufélagi minn og vinur hampaði nýkeyptum hlaupaskóm og kvaðst sérlega ánægður með kaupin.

Þó að þú lýsir hve litlu þú fórnir
er leitun að dýrari skóm.
Fallega hlaupa hlaupaskórnir.
En helvíti er buddan tóm.

Þótt þú til skókaupa fjármunum fórnir,
fyllast liðir af gigt.
Hleypur þú eða hlaupa skórnir?
Er hlaupið af réttri þykkt?

Þó að þú orkunni ómældri fórnir
af árangri segir fátt.
Hleypur þú eða hlaupa skórnir?
er hlaupið í rétta átt?

Þótt allavega þú einhverju fórnir,
það efast fáir um það.
Hleypur þú eða hlaupa skórnir?
Er hlaupið á réttum stað?

Þótt þú af alefli orkunni fórnir
það orsakar bara svengd.
Hleypur þú eða hlaupa skórnir?
Er hlaupið af réttri lengd?

Þó að þú líkamans löngunum fórnir,
svo lengur þú getir tórt,
(Hleypur þú eða hlaupa skórnir?)*
er hlaupið þá nógu stórt?

Þó að þú öllum fótunum fórnir,
þú fulllitlum árangri nærð.
Hleypur þú eða hlaupa skórnir?
Er hlaupið af réttri stærð?

Þó að þú öllum frítíma fórnir
og frúin sé alveg bit.
Hleypur þú eða hlaupa skórnir?
Er hlaupið af réttum lit?

Þó að þú margskonar munaði fórnir
og munir hvað læknirinn sagði,
hleypur þú eða hlaupa skórnir?
Er hlaupið með réttu bragði?

Þótt þú í algleymi ærunni fórnir,
í æsingi látir það vaða,
hleypur þú eða hlaupa skórnir?
Er hlaupið á löglegum hraða?

 


Skírdagur

Ég var að rifja upp það sem ég lærði í gamla daga um hvað gerðist í biblíusögunum á skírdag. Þá mundi ég að einn góður hagyrðingur hafði nýlega samið minnisvísur um páskaguðspjallið. Ég kann nú ekki þær vísur - held þó að engin þeirra hafi verið svona:

Margar gamlar mæður þar
mikið urðu fegnar;
á lærisveinum lappirnar
loksins voru þvegnar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Skruddublogg

Höfundur

Hallmundur Kristinsson
Hallmundur Kristinsson

Hagyrðingur og hundraðþjalasmiður

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2020
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30    

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Bjarni
  • strjálir
  • tásur
  • Leyfið
  • 20170922 164501[1]

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband