Færsluflokkur: Spaugilegt

Orðsending

Ræðustúf að rita hér
mig rak í nauður
til að sæist að ég er
ekki dauður.

Löng saga í stuttu máli.

Skotinn í Guðrúnu skapríku
var Skafti sem þrælaði í fabríku.
Hann reyndi hana við
að riddara sið.
Þau rækta nú tómat og papríku.

Þökkum liðið

www.visir.is  Útkall vegna baðferðar

Furðanlega fljótt af stað
fer um bæ með hraði
slökkvilið sem langar að
líta á fólk í baði!


Merklileg frétt m/skýringu

www.visir.is  Vilhjálmur á leið á borgarstjórnarfund

Oft eru stjórnmálin óttalegt baks.
Enn er margt sem truflar gamla hróið.
Í vinnuna sína komst Villi ekki strax,
vegna þess hann þurfti að skreppa á klóið.


Orðaskýringar

Það var hér um árið að ég var að vinna hjá Leikfélagi Akureyrar. Þá var Sigurður Hróarsson leikhússtjóri. Dag nokkurn kvaðst hann hafa verið á mánaðarlegum fundi forstöðumanna menningarstofnana bæjarins og þar hafi m.a. verið dreift blaðsnepli með ýmsum skrám og töflum til útfyllingar. Á þessum snepli hefði auk annars verið að finna eftirfarandi íslensk orð. Bað hann um aðstoð samverkamanna sinna til skilnings þessum orðum. Sem góður leikhúsþegn brást ég við þessari bón hans og útbjó skýringar á  þessum orðum.

Árangursstjórnunarkerfi                               

Kerfi til stjórnunar á árangri, felst einkum í því hvort  hugsað er á undan eða eftir framkvæmdum.

Árangursbreytingastjórnun

Að stjórna breytingum á árangri – felst einkum í
því að vinna hægar eða hraðar eftir atvikum,snertir
einnig lengd kaffitíma.

Aðgerðaráætlun

Rökstudd ákvörðun um að fara í aðgerð,t.d.brjóstastækkun eða kynskipti.

Árangurshugsun

“Höfum við gengið til góðs……”

Skorkort

Kort sem rennt er í skoru,t.d. Debetkort eða fríkort.

Skýjamarkmið

Stefnuákvörðun í blindflugi.

Orsaka – afleiðingasamband

Hjónaband eða sambúð.

Jafnvægisstillingarmæling

Ákveðin aðgerð á hjólbarðaverkstæði.

Árangursmælikvarði

Talning seldra aðgöngumiða.

Árangurshvati

Viagra.

Heildarskorkort

Kort notað í kappleikjum sem heimilar handhafa
að skora öll mörkin.

Afleiðingasamhengi

Gálgi fyrir tvo eða fleiri.

Árangursviðmið

Samanburður við meðal-Jón.

Staðbundin og heildræn endurgjöf

Æla.

Upplýsingagjöf

Gefinn lampi eða ljóskastari.

Drefistýring

Stilliarmur á áburðardreifara.

Viðhorfskönnun

Kerfisbundin athugun á meðvitaðri afstöðu manna til margvíslegra umhverfisþátta.

Fjárhagsáætlunarferli

Gjaldþrot eða bankarán


Brennandi spurning - bráðgott svar

Verður engin vísa í dag
vistuð á bloggi mínu?
Nú er heima. Nú er lag;
núna er allt í fínu!

Alls öryggis skal gætt....

Stundum hvessir í Reykjavík…….

Ólafur lék með geði glöðu.
Það gerist margt afar fljótt.
Almannavarnir í viðbragðsstöðu
verða í alla nótt.


mbl.is Ólafur: Áherslur komu mjög seint fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvítt ævintýri.

Þetta litla hvíta ævintýri hefur lifað með mjög litlum hluta þjóðarinnar frá því það var skrifað fyrir nokkrum áratugum. Nú finnst mér tími til kominn að það lifni meðal stærri hluta hennar.

Einu sinni var hvítur ormur. Hvíta orminn elti hvítur ungi. Og hvíta ungan elti hvít rotta. Og hvítu rottuna elti hvítur köttur. Og hvíta köttinn elti hvítur hundur. Og hvíta hundinn elti hvítur hrafn. Og hvíta hrafninn elti hvítur refur. Og hvíta refinn elti hvítur maður. Og hvíta manninn elti hvítur ísbjörn.
Hvíta ísbjörninn elti hvít gæfa:
Hann náði hvíta manninum, sem hafði náð hvíta refnum, sem hafði náð hvíta hrafninum, sem hafði náð hvíta hundinum, sem hafði náð hvíta kettinum, sem hafði náð hvítu rottunni, sem hafði náð hvíta unganum, sem hafði náð hvíta orminum, sem hafði náð sér eftir erfið veikindi.
Hvítur köttur útí hvítri mýri setti upp á sér hvítt stýri og úti er hvítt ævintýri.


Saga úr sveitinni

Kristinn fyrrum góðbóndi á Arnarhóli í Kaupangssveit var þekktur fyrir að gera vel við kýr sínar, enda launuðu þær honum það með miklum afurðum. Einhverju sinni fékk hann tunnu af dökku sýrópi, sem hann notaði til að bæta þeim í munni og maga. Það var krani á tunnunni og var hún höfð utandyra og sýrópið látið renna í fötur sem bornar voru til kúnna. Einu sinni þegar kalt var í veðri hneig sýrópið
seigfljótandi mjög hægt úr tunnunni. Setti bóndi fötuna undir kranann og hugðist nota tímann sem það tæki að koma lögg í fötuna til annarra verka. Vildi nú ekki betur til en svo að hann steingleymdi fötunni og sýrópinu, tunnunni og krananum. Uppgötvaði sonur hans hagmæltur morguninn eftir að sýrópið var að mestu runnið úr tunnunni og út um víðan völl. Varð honum það efni í vísu:

Fyrir brest á minni manns
margur neðra hýrnar.
Það fór allt til andskotans
sem átti að fara í kýrnar.


Um bloggið

Skruddublogg

Höfundur

Hallmundur Kristinsson
Hallmundur Kristinsson

Hagyrðingur og hundraðþjalasmiður

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Bjarni
  • strjálir
  • tásur
  • Leyfið
  • 20170922 164501[1]

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband