Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Sumri hallar

Haustið með lymsku læðist.
Í leynum dokar um stund.
Fyrsti snjóskaflinn fæðist
fyrr en varir á grund.

Vesalings bangsi

Gæt hins andlega gróður þíns.
Gneyptur í Skagfirsku högunum
bangsi nú leitar bróður síns
sem barst hér á land á dögunum.


mbl.is Erfið aðgerð framundan að Hrauni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðgerð á leghálsi

Ég las í Fréttablaðinu um nýjustu "fegrunar"??aðgerð sem ryður sér rúms meðal kvenna:

Græjar sig fyrir giftingu.
Gagnast þá margs kyns prjálið.
Fer svo í leghálslyftingu;
líklega er það málið.

 


Fjármálaráðgjöf

Fjármuni að fara með sparlega
felst í að eyða þeim varlega.
Ef laun eru rýr
og lífsbjörgin dýr,
þú enda skalt eyðsluna snarlega.

Orðaskýringar

Það var hér um árið að ég var að vinna hjá Leikfélagi Akureyrar. Þá var Sigurður Hróarsson leikhússtjóri. Dag nokkurn kvaðst hann hafa verið á mánaðarlegum fundi forstöðumanna menningarstofnana bæjarins og þar hafi m.a. verið dreift blaðsnepli með ýmsum skrám og töflum til útfyllingar. Á þessum snepli hefði auk annars verið að finna eftirfarandi íslensk orð. Bað hann um aðstoð samverkamanna sinna til skilnings þessum orðum. Sem góður leikhúsþegn brást ég við þessari bón hans og útbjó skýringar á  þessum orðum.

Árangursstjórnunarkerfi                               

Kerfi til stjórnunar á árangri, felst einkum í því hvort  hugsað er á undan eða eftir framkvæmdum.

Árangursbreytingastjórnun

Að stjórna breytingum á árangri – felst einkum í
því að vinna hægar eða hraðar eftir atvikum,snertir
einnig lengd kaffitíma.

Aðgerðaráætlun

Rökstudd ákvörðun um að fara í aðgerð,t.d.brjóstastækkun eða kynskipti.

Árangurshugsun

“Höfum við gengið til góðs……”

Skorkort

Kort sem rennt er í skoru,t.d. Debetkort eða fríkort.

Skýjamarkmið

Stefnuákvörðun í blindflugi.

Orsaka – afleiðingasamband

Hjónaband eða sambúð.

Jafnvægisstillingarmæling

Ákveðin aðgerð á hjólbarðaverkstæði.

Árangursmælikvarði

Talning seldra aðgöngumiða.

Árangurshvati

Viagra.

Heildarskorkort

Kort notað í kappleikjum sem heimilar handhafa
að skora öll mörkin.

Afleiðingasamhengi

Gálgi fyrir tvo eða fleiri.

Árangursviðmið

Samanburður við meðal-Jón.

Staðbundin og heildræn endurgjöf

Æla.

Upplýsingagjöf

Gefinn lampi eða ljóskastari.

Drefistýring

Stilliarmur á áburðardreifara.

Viðhorfskönnun

Kerfisbundin athugun á meðvitaðri afstöðu manna til margvíslegra umhverfisþátta.

Fjárhagsáætlunarferli

Gjaldþrot eða bankarán


Brennandi spurning - bráðgott svar

Verður engin vísa í dag
vistuð á bloggi mínu?
Nú er heima. Nú er lag;
núna er allt í fínu!

Jólafasta?

Þegar Jörundur Friðbergsson á Húsatóftum í Vestari Miðfirði kom
á heilsugæsluna á Rauðasandi til skoðunar og var spurður hvort
hann væri ekki fastandi, svo sem fyrir hann hafði verið lagt,
svaraði hann með þessari vísu:
 
Fæðið skerða fráleitt vil;
frjálslegt er það orðið.
Matnum gerði makleg skil
við morgunverðarborðið.
 

 
Var þetta í fyrsta og eina skiptið sem hann heyrðist
mæla stöku af munni fram og höfðu menn raunar
aldreitil þess vitað að hann væri hagmæltur.

Heimild: Þjóstólfur 3,tbl.8.árg bls.13 ofarlega.

Dularfullu skilaboðin

Í dag kl 13.55 sendi ég konu minni svohljóðandi  sms: Btbtm. Þrem mínútum síðar sendi ég syni mínum samhljóða skilaboð. Ég vissi hins vegar ekkert af þessu fyrr en sonur minn hringdi í mig og spurði hvað ég væri að meina. Síminn minn hafði verið ósnertur í hulstri sínu við beltisstað og með takkalæsingu á. Þetta er raunar ekki í fyrsta sinn sem konan móttekur frá mér skeyti sem síminn semur sjálfur og sendir. Þá kemur stundum fyrir að ég hringi úr lokuðum símanum án nokkurrar fyrirhafnar í einhver númer. Hvað er að ske? Er gemsinn minn snarruglaður eða eru hakkarar á sveimi??

Heimspeki

Þessi svokölluð samtíð
sem að við lifum í
er bara fyrrum framtíð.
Finnst ykkur vit í því?

Kolefnisjöfnuður

Mig langar að láta kolefnisjafna bílinn minn. Hugsa að gangurinn verði þýðari við það.
Ég byrjaði að leita í símaskránni. Fann ekkert kolefnisjöfnunarverkstæði. Kannski væri hægt að fá bara kolefnisjafnaðarmann heim til þessa verks. Kolefniskrata. Skyldi Össur vera kolefniskrati? Ég kann ekki við að hringja í hann og spyrja. Þekki hann ekki neitt. Umfram það sem maður  kynnist opinberum persónum í fjölmiðlum. Hvað á ég að gera? Segið mér ekki að fara og planta trjám. Ég ætla sko ekkert að fara að kolefnisjafna fyrir Pétur og Pál. Bara minn eigin bíl og ekkert annað. Það er annars ljótt með bílafjölgunina í Kína. Svei mér sem þeir þurfa að kolefnisjafna. Spurning hvort það er nokkurt pláss fyrir öll þau tré sem til þess þarf.

Næsta síða »

Um bloggið

Skruddublogg

Höfundur

Hallmundur Kristinsson
Hallmundur Kristinsson

Hagyrðingur og hundraðþjalasmiður

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Bjarni
  • strjálir
  • tásur
  • Leyfið
  • 20170922 164501[1]

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband